Skilgreining á túlkaþjónustu

Túlkaþjónusta talaðs máls á Íslandi skiptist í þrjá flokka: Samfélagstúlkun, löggilda dómtúlkun og ráðstefnutúlkun.

  • Með samfélagstúlkun er átt við alla þá túlkun talaðs máls sem ekki fellur undir  dómtúlkun. Samfélagstúlkun fer fram á þeim stað sem kaupandi þjónustu tiltekur hverju sinni og felur í sér gagnvirkni þar sem túlkurinn er miðlari tjáskipta milli aðila sem tala ólík tungumál.
  • Með dómtúlkun er átt við túlkun sem framkvæmd er af löggiltum dómtúlki í réttarsal, eða öðru því húsnæði sem tilgreint er af dómara, og framkvæmd til samræmis við ákvæði laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, með síðari breytingum, eða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, með síðari breytingum.
  • Með ráðstefnutúlkun er átt við túlkun á ráðstefnum, hvort heldur um er að ræða snartúlkun, lotutúlkun eða hvísltúlkun. Slík túlkun fer einnig fram á þeim stað sem kaupandi þjónustu tiltekur hverju sinni.
    • Með snartúlkun er átt við þjónustu tveggja túlka sem starfa saman í einum klefa fyrir hvert tungumál sem þýtt skal og skiptast á að túlka ræður og annað talað mál jafnóðum. Áheyrendur hlýða þá á túlkana í heyrnartækjum sem leigð eru gegn gjaldi.
    • Með lotutúlkun er átt við þjónustu túlks sem túlkar talað mál þannig að hann hlustar á nokkrar málsgreinar og túlkar þær síðan. Starfar einn túlkur fyrir hvert tungumál við veitingu slíkrar þjónustu er ekki þörf á sérstökum tækjabúnaði.
    • Með hvísltúlkun er átt við þá þjónustu túlks að túlkað er fyrir einn eða fáa þátttakendur ráðstefnu sem ekki skilja málið. Oft sitja viðkomandi afsíðis í ráðstefnusal með túlki sem hvísltúlkar til þeirra og er ekki þörf á sérstökum tækjabúnaði.